Ef þú borgar ekki fyrir vöruna ... Samfélagsmiðlaverkefni Rótarýklúbbs Rvík-Breiðholts

þriðjudagur, 9. janúar 2024

Eyrún Ingadóttir

Á haustmisseri 2023 stóð Rótarýklúbburinn Rvík-Breiðholt fyrir fræðslu meðal ungmenna í tíunda bekk grunnskólanna fimm í Breiðholti sem miðaði að því að auka samfélagsmiðlalæsi þeirra.

Klúbburinn fékk Skúla Geirdal fjölmiðlafræðing, verkefnastjóra Fjölmiðlanefndar, til að fara í skólana og halda erindi um börn og netmiðla undir heitinu: Ef þú borgar ekki fyrir vöruna þá ert þú varan. Þar fjallaði Skúli um hvers virði upplýsingarnar um okkur eru og hvað við greiðum fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum. Hann fór yfir hvernig algóritmar samfélagsmiðlanna virka og hvað þurfi að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreiti frá ókunnugum og deilingu mynda.

Að lokum kom Skúli á fund hjá klúbbnum sem var streymt og öllum klúbbum landsins boðið að fylgjast með í tilefni af 40 ára afmæli klúbbsins.

Upptaka af þeim fundi er á Facebook- síðu klúbbsins og er öllum velkomið að horfa:  https://www.facebook.com/100081884703125/videos/695156675920874 


Ef þú borgar ekki fyrir vöruna … Skúli Geirdal flutti erindið í grunnskólunum 5 í Breiðholti