Kæru Rótarýfélagar og vinir.
Það er ótrúlegt hve tíminn líður hratt. Nú er umdæmisárið mitt hálfnað, þó að tilfinningin sé, að þetta hafi bara rétt verið að fara í gang. Heimsóknum til klúbba er að mestu lokið og það hefur verið gaman og mikil forréttindi að fá að hitta ykkur öll og sjá það öfluga starf sem í gangi er um allt land. Fundurinn með Rótarýklúbbi Ísafjarðar varð reyndar að fjarfundi, þar sem flugið var fellt niður, þegar ég var á leið á flugvöllinn. Við munum reyna að bæta úr því með vorinu. Ég á síðan einnig eftir að koma til Vestmannaeyja og stefni þangað fljótlega á nýju ári.
Eins og við ræddum á fundum okkar, þá er félagaþróun mikið forgangsmál. Við ætlum að halda stöðu okkar sem sérstakt umdæmi og það er einfaldast að gera það, með því að tryggja, að við verðum alltaf í kringum 1.200 félagar hér á landi. Ég hef mikla trú á þvi að þetta markmið náist með góður samstarfi við ykkur. Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að efla aðkomu okkar að Rótarýsjóðnum. Viðbrögð hafa verið góð og margir klúbbar hafa stóraukið framlag í sjóðinn. Það er einnig greinilegt, að félagar hafa tekið við sér og fleiri hafa skráð sig sérstaklega með beinu framlagi í Rótarýsjóðinn.
Ég vil þakka þeim sérstaklega, sem komu á Umdæmisþing í október s.l. Þingið tókst vel og ég held að flestir hafi notið þess sem þar fór fram. Ég vil ítreka enn og aftur, að Umdæmisþing er fyrir alla Rótarýfélaga. Þetta er í raun uppskeruhátíð okkar, en á sama tíma aðalfundur. Þar eru rædd málefni, sem koma okkur öllum við. Ekki skemmir, að þarna hittast Rótarýfélagar og vinir, skiptast á skoðunum og eiga saman góða stund. Setjum það á dagatal okkar að koma á næsta Umdæmisþing - það er alveg þess virði.