Hugleiðingar við lok Umdæmisþings

mánudagur, 21. október 2024

Umdæmisþing Rótarýumdæmisins var haldið á Reykjavik Natura um síðustu helgi.  Um 100 Rótarýfélagar sátu þingið og um 130 voru á hátíðarfundi Rótarýklúbbs Reykjavíkur á föstudagskvöldinu.  Sá fundur var tileinkaður 90 ára afmæli klúbbsins, sem um leið markar upphaf Rótarýstarfs á Íslandi.

Við höfðum gert okkur vonir um, að fleiri félagar kæmu á þingið.   Við viljum bæði ræða málefni Rótarýhreyfingarinnar, en ekki síður er tilefni til að fagna 90 ára glæsilegri sögu Rótarýstarfs á landinu.  Eins og gengur eru félagar mikið á faraldsfæti á þessum tíma og við munum halda áfram að ræða málefnin okkar á komandi mánuðum.

Umdæmisþing 18.-19.október 2024

Umræður á þinginu voru mjög áhugaverðar og það er ljóst, að það er mikil vinna framundan hjá umdæminu og klúbbunum okkar.  Áherslumál þingsins voru tvö.  Fyrri áherslan er Rótarýsjóðurinn og þróun hans.  Það er ljóst, að við getum gert mikið betur í framlögum okkar og félagar eru hvattir til þess að skoða vel störf sjóðsins og hvernig við getum lagt enn meira af mörkum en við höfum gert á undanförnum árum.

Seinni áherslan og það sem mestur tími fór í er félagaþróun og hvernig við ætlum að vinna í henni á komandi misserum.  Félögum hefur verið að fækka og það eru áskoranir við að fá nýja félaga til að koma til liðs við okkur.  Það er þannig komið, að við erum komin að mörkum þess sem Rotary International viðurkennir sem sérstakt umdæmi.  Það virðist vera mikill samhljómur hjá félögum okkar, að halda þessar i stöðu.  Það þýðir einfaldlega, að við þurfum að fjölga Rótarýfélögum og það verður vinnan á næstu misserum.

Sigríður Björk Gunnarsdóttir bauð til næsta Umdæmisþings.  Þingið verður haldið í Garðabæ og verður í umsjón Rótarýklúbbsins Hof-Garðabæ, sem er heimaklúbbur verðandi umdæmisstjóra.  Rótarýfélagar eru beðnir um að taka frá dagana 10.-11.október árið 2025.  Það er rétt að ítreka, að allir Rótarýfélagar eru velkomnir á Umdæmisþing - þetta er ekki aðeins fyrir "embættismenn" klúbbanna.  Þetta er aðalfundurinn okkar og árshátíð og þar eru rædd málefni, sem eru okkur öllum viðkomandi.

Sigríður Björk, verðandi umdæmisstjóri

Ann-Britt ræðir Rótarýsjóðinn

Elísabet, tilnefndur umdæmisstjóri 2026-2027

Pallborð um sjálfboðaliðastarf

Viðurkenningar fyrir framlög í Rótarýsjóðinn

Sigurður Guðmundsson fjallar um lömunarveiki (Polio)

Stephanie Urchick ávarpar þingið

Fjölmenni á föstudagskvöld

Sie-Hee fjallar um félagaþróun

Margt sem þarf að íhuga á Umdæmisþingi