Úrslit í golfmóti Rótarý 2025

þriðjudagur, 8. júlí 2025

Jón Karl Ólafsson

Glæsilegt golfmót Rótarý - Öndverðarnesi þann 25.júní 2025

Golfmót Rótarý á Íslandi var haldið í Öndverðarnesi þann 25. júní s.l. Mótið var hið glæsilegasta og voru rúmlega 60 skráðir til leiks og þar af voru 40 Rótarýfélagar frá 15 Rótarýklúbbum. Þetta var því eitt af stærri mótum hjá okkur. Allir skemmtu sér vel, þó að það hafi aðeins verið blautt á köflum. Golf á Íslandi snýst oft um gæði regnfatnaðar.

Rótarýklúbbur Grafarvogs tók að sér að útvega vinninga og skipuleggja í kringum mótið og var framlag þeirra frábært. Vinningar voru mjög glæsilegir og eftir mót snæddu keppendur saman í golfskálanum í Öndverðanesi. Við færum Margeiri, Sigrúnu, Tinnu og öllu starfsfólki klúbbsins okkar bestu þakkir fyrir frábærar móttökur í Öndverðarnesi.

Við eigum að stefna að því, að vera með a.m.k. 100 manna mót á vegum Rótarý á hverju ári, þar sem við náum í framtíðinni að ræsa alla út á sama tíma. Vonandi náum við því markmiði strax á næsta ári - setjum það a.m.k. á stefnuskrá.

Keppnisfyrirkomulag var þrískipt:

Klúbbakeppni Rótarý - þar sem tveir punktahæstu spilarar í hverjum klúbbi telja. Aðeins Rótarýfélagar telja í þessari keppni.

Höggleikur, án forgjafar. Aðeins Rótarýfélagar telja í þessari keppni.

Punktakeppni - kvenna og karla - verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. allir keppendur - Rótarýfélagar og gestir telja í þessari keppni.

Nándarverðlaun á öllum par 3 holum og lengsta teighögg karla og kvenna á 7. braut vallarins.

Sigurvegarar voru margir og í raun allir sem tóku þátt í mótinu. Við viljum þakka öllum þátttakendum sérstaklega fyrir að vera með.

Við óskum öllum þessum félögum okkar til hamingju með árangurinn.

Við áttum frábæran dag í Öndverðarnesi þó að aðstæður hafi verið nokkuð krefjandi vegna rigningar.  Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þátttöku og skemmtilegan dag.  

Sjáumst á næsta ári - enn fleiri :)

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar - klúbbmeistarar - Þorvaldur Ólafsson og Sigurður Guðni Gunnarsson

Klúbbmeistarar árið 2025 varð Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar, sem varði titil frá síðasta ári - vel gert og við óskum þeim til  hamingju. Þeir sem töldu voru Þorvaldur Ólafsson og Sigurður Guðni Gunnarsson.

Í öðru sæti var Rótarýklúbbur Rvík-Miðborg - eftir spennandi keppni og aðeins einum punkti minna.  Vel gert hjá þeim Sólveigu Pétursdóttur og Kristínu Guðmundsdóttur.

Í þriðja sæti var Rótarýklúbburinn Borgir - Kópavogur. Þar töldu Rut Hreinsdóttir og Jónína Þrúður Stefánsdóttir.

Klúbbmeistri í höggleik án forgjafar, Jón Valur Jónsson

 Það voru félagar frá 15 Rótarýklúbbum, sem tóku þátt í mótinu.  Allir Rótarýfélagar töldu í keppni í höggleik án forgjafar.  Meistari í höggleik án forgjafar var Jón Valur Jónsson frá RAC Rotaractklúbbi Reykjavíkur.  Það var gaman að sjá félaga frá Rotaract taka þátt í mótinu og vonandi senda þau fleiri leikmenn á næsta ári.

Sigurvegarar í punktakeppni kvenna, Sigrún Edda Jónsdóttir, Sólveig Guðrún Pétursdóttir og Helga R. Stefánsdóttir.

Í punktakeppni kvenna varð Sigrún Edda Jónsdóttir hlutskörpust með 36 punkta.  Í öðru sæti var Sólveig Pétursdóttir með 34 punkta og í þriðja sæta varð Helga R. Stefánsdóttir með 32 punkta.  Þetta var vel gert, þar sem aðstæður voru á köflum krefjandi.  Sigrún Edda spilaði sem gestur á mótinu og það þarf að fá hana til að ganga í Rótarý, þannig að hún telji í klúbbakeppni á næsta ári.  

Sigurvegarar í punktakeppni karla - Sigurður Möller, Þorvaldur Ólafsson og Þórir Guðmundur Sigurbjörnsson.

Í punktakeppni karla varð Sigurður Möller hlutskarpastur með 37 punkta.  Í öðru sæti varð Þorvaldur Ólafsson með 35 punkta og í þriðja sæti varð Þórir Guðmundur Sigurbjörnsson með 33 punkta.  Sigurður lék einnig sem gestur á mótinu og það gildir það sama um hann og Sigrúnu Eddu - við verðum að fá þau bæði til liðs við Rótarý.   

Hér eru með nokkrar skemmtilegar myndir, sem félagi okkar Geir Agnar Guðsteinsson úr Rótarýklúbbur Grafarvogs tók og færum við honum þakkir fyrir það.