Örninn og Stjörnukonur fengu viðurkenningu

laugardagur, 11. október 2025

Guðni

Hefð er fyrir því að viðurkenningarnar veittar til aðila í nærumhverfi þess klúbbs sem heldur umdæmisþings, klúbbs umdæmisstjóra.

Viðurkenningarnar að þessu sinni voru veittar Minningar- og styrktarsjóðsins Arnarins og Stjörnukvenna sem fengu styrki að upphæð 600 þúsund kr. hvor.

Var fulltrúum samtakanna vel fagnað við afhendinguna.

Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn

Örninn er félag sem stofnað var 2018 af Heiðrúnu Jensdóttur og sr. Jónu Hrönn Bolladóttur fyrir börn og unglinga sem hafa misst foreldri eða annan náinn ástvin og fjölskyldur þeirra.

Starf Arnarins fellst í mánaðarlegum samverustundum þar sem unnið er í sorginni, ásamt því að hafa gaman og njóta lífsins, oft undir handleiðslu fagaðila. Sjálfboðaliðar og börn fara í sumarbúðir yfir helgi með hópi af börnum og unglingum í Vindáshlíð og Vatnaskóg til þess að vinna með sorgina og hjálpa unga fólkinu að finna sorginni sinni heilbrigðan farveg. 

Allt starfsfólk gefur vinnu sína, og eru m.a. sálfræðingar, prestar, fjölskylduráðgjafar, myndmenntakennarar, námsráðgjafar og sjúkraþjálfarar. Þau nýta sína sérþekkingu í að hjálpa börnum og unglingum að vinna úr sinni sorg, en börn hafa ekki sömu getu og fullorðnir til þess að vinna úr sorginni. Í starfinu er leikur, myndlist, tónlist og fleira til þess að vinna úr sinni sorg.  

Starfið byrjaði í Vídalínskirkju og nú eru hópar á Akureyri og á Austurlandi, en ákall um starf á Austurlandi kom haustið 2024 eftir endurtekin áföll á því svæði.  

Það er markmið þeirra í Erninum að skapa vettvang fyrir mikilvæga úrvinnslu til framtíðar fyrir börn og unglinga á Íslandi sem hafa orðið fyrir sorg og áföllum. Þau líta á starf Arnarins sem forvarnarstarf og mikilvægt lýðheilsumál og er notendum að kostnaðarlausu.  

Sjá nánar hér.

Stjörnukonur 

Stjörnukonur voru stofnaðar í þeim tilgangi að efla aðkomu kvenna í sjálfboðastarfi. Í þessum hópi 120 kvenna geta konur sameinað krafta sína í öflugum hópi fyrir góð málefni. 

Hópurinn hefur það meginmarkmið að styrkja og efla barna- og unglingastarf, sinna fræðslu- og uppbyggingarstarfi og vera góðgerðafélag sem styrkir góð og verðug málefni. Áhersla er á að horfa á sjónarmið flestra deilda innan íþróttafélagsins Stjörnunnar og hagsmunir sem flestra geti notið sín. 

Stjörnukonur hafa staðið fyrir fræðslukvöldum með því að fá til sín fyrirlesara og vera með fjölbreytta fræðslu sem hentar iðkendum Stjörnunnar og aðstandendum.  

Verkefni sem nú er styrkt er t.a.m. fræðslufyrirlestur með Svavari Knút, Taktu Pláss. Markmiðið er að efla forvarnir og vitund ungra iðkenda og foreldra í forvarnarviku bæjarins. Þannig eflum við vitund og vitneskju um málefnið, sem er liður í að sporna við félagslegri einangrun. 

Sjá nánar hér.

Fréttin birtist fyrst á www.rotary.is

Sigríður Björk Gunnarsdóttir, umdæmisstjóri, Arna Ýr Böðvarsdóttur frá Erninum og Harpa Rós Gísladóttir frá Stjörnukonum