Rótarýklúbbar setji umhverfismál á oddinn

fimmtudagur, 28. apríl 2022

Guðríður


Umhverfisnefnd Rótarý hvetur alla Rótarýklúbba til setja umhverfismál á oddinn og sinna umhverfisverkefnum af fjölbreyttu tagi í sínu nærumhverfi. 

Ljóst er að margir klúbbar sinna umhverfistengdum verkefnum árlega af miklum myndarskap.  Dæmi um slík verkefni eru ýmis gróðursetningarverkefni, hvort sem um er að ræða skógarreiti sem klúbbar hafa umsjón með, gróðursetningar inni í byggð í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag að ógleymdum verkefnum þar sem rótarýklúbbar hafa tekið að sér og/eða verið með umsjón með gróðursetningu ávaxtatrjáa við leikskóla. Jafnframt hafa klúbbar eindregið verið hvattir til að hafa umhverfismál í huga við skipulagningu erinda á fundum sínum.

Umhverfisnefnd vill vekja athygli klúbba á Yrkjuverkefni Yrkjusjóðs en það snýst um að grunnskólabörn fái að gróðursetja skógarplöntur í sínu nærumhverfi.  Grunnskólar um allt land geta sótt um að fá að taka þátt í verkefninu og árlega hafa um 100 skólar verið með, sumir þeirra allt frá upphafi verkefnisins fyrir um 30 árum. Rótarýklúbbar hafa lagt hönd á plóg við að aðstoða grunnskóla á sínu heimasvæði í tengslum við Yrkjuverkefnið og eru klúbbar áfram hvattir til að leggja málefninu lið.
Þeir sem hafa áhuga á slíku eru vinsamlegast beðir að hafa samband við verkefnisstjóra Yrkjusjóðs, Ragnhildi Freysteinsdóttur (rtf@skog.is).     Önnur verkefni sem nefndin vill vekja athygli á eru:
Matjurtaræktun - Klúbbar eru hvattir til að taka til hendinni í matjurtaræktun á vordögum 2022, í heimagarði/nærsamfélagi, eigin garði, skólagörðum eða fjölskyldugörðum hjá sveitarfélagi eða í samstarfi við leikskóla/grunnskóla. Fræðsluefni er fáanlegt á ýmsum stöðum, m.a. handbók um grænmetisræktun í heimagörðum, Úr beði á borð, sem fæst hjá Garðyrkjufélagi Íslands.  Gróðursetning á plöntum í heimabyggð – (t.d. samstarf við sveitarfélög) klúbbar séu opnir fyrir ræktunartækifærum í heimabyggð, t.d. ávaxtatré fyrir leikskóla eins og hefur verið gert á Suðurnesjum og í Garðabæ.  Hreinsa rusl  - hver klúbbur er hvattur til að taka til hendinni í grennd við sína heimahöfn en einnig er sniðugt að klúbbar taki þátt í allsherjarhreinsunarverkefnum, t.d. á vegum sveitarfélaga og/eða öðrum aðilum.  

Umhverfisstefna Rótarý á Íslandi

Rótarýhreyfingin, sem er meðal  stærstu og áhrifamestu mannúðarsamtaka heims, einbeitir sér nú í auknum mæli að umhverfis- og loftslagsmálum. Hamfarahlýnun jarðar ógnar lífsviðurværi fólks í mörgum löndum og ef ekkert er að gert munu loftslagsbreytingar ógna lífsviðurværi allra jarðarbúa innan fárra ára.  Verkefni hreyfingarinnar snúast meir og meir um að takast á við þær afleiðingar sem breytingar í umhverfi og loftslagi hafa á samfélög.     Rótarý á Íslandi setur sér umhverfisstefnu og vill með því verða virkt afl í umhverfismálum og efla umræðu um lausnir til verndar umhverfinu.    Rótarý á Íslandi hvetur félaga sína til að vera virkir í verndun umhverfis og auka umhverfisvitund félagsmanna.    Rótarýfélagar taki höndum saman um að breiða út mikilvægi góðrar umgengni við umhverfið og náttúru landsins. Allir klúbbar setji sér markmið í umhverfismálum og  hafi verkefni sem tengjast verndun umhverfis á starfsáætlun sinni.    Umdæmið og klúbbar kappkosti að nota umhverfisvænar vörur í öllum verkefnum sínum í náinni samvinnu við viðskiptavini og þjónustuaðila. Jafnframt leitist klúbbar við að draga úr pappírsnotkun, eins og kostur er.   Rótarýhreyfingin leggur áherslu á að minnka matarsóun, draga úr mengandi samgöngum, efla kolefnisbindingu í gróðri og aðrar þær aðgerðir sem leiða til mótvægis við hlýnun jarðar.