Umsóknarfrestur um eins árs skiptinám er til 1. desember

fimmtudagur, 27. október 2022

Umsóknarfrestur vegna nemendaskipta Rótarý stendur til 1. desember n.k.

Enn á ný gefur Rótarý íslenskum skólanemum tækifæri til að dveljast hjá fjölskyldum erlendis og stunda þar nám á skólaárinu 2023-2024.

Þetta er einstakt tækifæri fyrir ungt fólk til að útvíkka sjóndeildarhringinn og kynnast fólki í öðrum löndum, fræðast um landshætti, siði og menningu auk þess sem þetta er prýðisgott tækifæri til að efla tungumálakunnáttu.

Nemendaskipti af þessum toga eru einn þáttur í fjölbreyttu ungmennastarfi Rótarýhreyfingarinnar. Þau hafa tekist afar vel á undanförnum áratugum og verið Rótarý til mikils sóma. Fátt endurspeglar betur markmið hreyfingarinnar um að vinna að betri skilningi milli þjóða og friðvænlegri heimi. Hvarvetna hafa nemendur frá Íslandi mætt gestrisni hjá rótarýfélögum víða um lönd. Hver nemandi á þess kost að búa hjá 2-4 fjölskyldum yfir árið.

Skiptinemarnir sækja um fyrir milligöngu rótarýklúbba hér á landi. Ætlast er til að skiptin séu gagnkvæm þannig að þeir klúbbar sem senda nemendur utan taki á móti jafnmörgum í staðinn. Þess vegna er það verkefni einstakra klúbba að finna áhugasama umsækjendur til námsdvalar erlendis og erlendum nemendum gistifjölskyldur hér á landi. Skiptinemar þurfa að vera orðnir 16 ára en ekki eldri en 18 1/2 árs þann 1. september árið sem dvölin erlendis hefst

Allar nánari upplýsingar um nemendaskiptin veitir Klara Lísa Hervaldsdóttir, formaður æskulýðsnefndar Rótarý á Íslandi í netfang: youth@rotary.is eða í síma 856 5909.

Sjá einnig hér.