Settu upp 9 upplýsingaskilti um Jón lærða

miðvikudagur, 25. janúar 2023

Stefán Þórarinsson

Til að minnast Jóns lærða, „eins merkasta manns Íslandssögunnar“ ævi hans og verka og þætti Austfirðinga við að bjarga honum, hóf Rótarýklúbbur Héraðsbúa, í samvinnu við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, árið 2019 að setja upp 9 söguskilti. Fjögur minni skilti við rústir kota þar sem hann og kona hans Sigríður Þorleifsdóttir fengu að búa og fimm stærri skilti við næsta þjóðveg, sem gera betri grein fyrir sögu Jóns og athöfnum.

Síðsta skiltið var afhjúpað 3. desember  2022.

Gengið frá skilti í Bjarnarey

Gengið frá síðasta skiltinu

Hver var Jón lærði?

Jón Guðmundsson (1574-1658) fæddist í Ófeigsfirði á Vestfjörðum, sonur fátækra hjóna. Hann ólst upp að hluta hjá afa sínum sem var prestur. Þar komst hann í færi við bækur og lesmál, varð listaskrifari og teiknari auk þess að vera óvenju handlaginn á bæði tré og horn. Einnig var Jón gæddur góðri athyglisgáfu og minnugur á allt sem hann las.

Innan við tvítugt var hann fenginn til stórbænda til að smíða og afrrita gömul handrit, ekki síst lagatexta sem höfðingjar þurftu mjög á að halda í tíðum landadeilum sínum. Af þessu varð Jón mjög fjölfróður og fékk viðurnefnið „hinn lærði“ þótt hann ætti ekki kost á formlegri skólagöngu. Þekking hans á lagatextum reyndist honum, alþýðumanninum, bæði gagnleg en líka hættuleg síðar á ævinni.

Jón kvæntist árið 1600 Sigríði Þorleifsdóttur og hóf kotbúskap en hélt líka áfram að vinna fyrir höfðingja meðal annars Þorlák biskup á Hólum.

Árið 1615 reyndist örlagaár í ævi Jóns. Það haust fórust þrjú Basknesk hvalveiðiskip í miklu haustveðri. Flestir skipverjar komust í land alls 83 á afskekktri strönd í fátæku landi undir vetur. Það fór svo að Ari sýslumaður í Ögri safnaði saman flokki manna og lét drepa 32 skipverja í blóðugri aðför en hinir komust undan.  Jón hafði kynnst hvalveiðimönnunum og neitaði herkvaðningu Ara og skrifaði „Sanna frásögn“af þessum voðaverkum, þegar honum blöskraði sú lýsing, sem Ari sýslumaður lét út ganga, sér til réttlætingar. Með skrifi þessu stefndi Jón lífi sínu í hættu og lagði á flótta sem á endanum leiddi hann eignalausan og hrakinn „samviskuflóttamann“ austur á land á miðjum vetri árið 1632 með útlegðardóm fyrir kukl og galdra. Vinveittir valdsmenn eystra brugðu hlífiskildi yfir Jón þar til úlegðardómnum var á endanum breytt 1639. Eftir það fékk hann að búa á Austurlandi í friði eftir 24 ára hrakninga.

Tók nú Jón til við skriftir síðustu 18 ár ævinnar mjög fyrir áreggjan Brynjólfs biskups í Skálholti og skrifaði niður margt af því sem hann hafði lært og veitt athygli. Eftir hann liggja einstök rit m.a. um gömul læknisráð, Eddukvæðin, skáldamálið, norræna ásatrú og þýðing rúnaletursins. Hann lýsti náttúrunni og náttúrutrú forfeðranna og fleiru af fornri þekkingu og þóðháttum sem hann þannig bjargaði frá glötun. Auk þessa teiknaði hann víðfrægar hvalamyndir og var eitt besta ljóðskáld sinnar samtíðar.

 

Stefán Þórarinsson