Setja upp frískáp í Grafarvogi

fimmtudagur, 23. febrúar 2023

Guðni

Á næstu vikum verður fyrsti frískápur (frí-ísskápur) í Grafarvogi settur upp. Hann verður á forræði Rótarýklúbbs Grafarvogs sem sér um alla framkvæmd.

Í vetur kom upp umræða í Rótarýklúbbi Grafarvogs um að það vantaði frískáp í Grafarvoginn og hvort ekki væri upplagt að klúbburinn sæi um að setja upp slíkan skáp. Frískápar eru þekktir um allan heim en meginmarkmið með þeim er að minnka matarsóun. Einstaklingar og fyrirtæki geta sett og sótt mat í skápana og markmiðið er að sá sem á of mikið af einhverju matarkyns geti sett í skápinn og einhver annar sem getur notað sér matinn sæki og nýti.

Að sjálfsögðu þarf að merkja matinn vel, með innihaldi og dagsetningu og mikilvægt er að gengið sé vel frá öllum mat.

Fyrsta skref var að kynnast frískápamenningunni í borginni og til þess sótti einn félaga um aðgang að admin-síðu frískápahópa. Það var auðsótt. Innan hópsins er mikil uppsöfnuð þekking og greið leið að upplýsingum.

Því næst var boðið á félagsfund varaborgarfulltrúa sem hefur reynslu af notkun frískáps. Hann gaf góðar upplýsingar og leiðbeindi um leiðir innan borgarinnar.

Félagar í klúbbnum höfðu samband við borgarskrifstofur til að fá leyfi fyrir skápnum og staðsetningu. Óskastaðsetning er Spöngin. Beðið er eftir leyfi frá borginni og vonast til þess að það komi innan skamms.

Í Spönginni eru tvær matvöruverslanir, bókasafn, nokkrir matsölustaðir og apótek. Gríðarleg umferð fólks er þarna alla daga og því hentugt að setja þar niður frískáp.

Rætt var við þá sem reka matvöruverslanir í Spönginni og óskað eftir samvinnu. Þegar skápurinn er kominn, verður einnig rætt við þá sem reka veitingahús og fleiri. Skápurinn verður kynntur á fésbókarsíðu og í hverfisblaði.

Klúbburinn lét teikna skýli fyrir skápinn eða skápana því gert er ráð fyrir bæði ísskáp og frystiskáp (sjá mynd).

Það er von Rótarýfélaga að skápnum verði vel tekið og að hann geti þjónað sínum tilgangi sem er fyrst og fremst að minnka matarsóun hjá fyrirtækjum og einstaklingum.

 

Vigdís Fjóla Stefánsdóttir, félagi í Rótarýklúbbi Grafarvogs